Styrkir eiginfjárhlutfall bankans umtalsvert
Stjórn Glitnis banka hf. hefur tekið ákvörðun um að gefa út breytanleg skuldabréf. Skuldabréfin verða víkjandi og teljast til eiginfjárþáttar A í reikningum félagsins. Heildarfjárhæð útgáfunnar verður allt að fimmtán milljarðar króna. Skuldabréfin breytast að fimm árum liðnum í hlutabréf í Glitni banka hf. á fyrirfram ákveðnu gengi, í samræmi við nánari ákvæði skuldabréfanna.
Skuldabréfin gefa fjárfestum fasta verðtryggða ávöxtun til fimm ára, auk þess sem fjárfestar njóta góðs af jákvæðri verðþróun hlutabréfanna á tímabilinu. Útgáfan telst til eiginfjárþáttar A og styrkir þannig eiginfjárhlutfall Glitnis umtalsvert.
Skuldabréfin verða seld í lokuðu útboði til fagfjárfesta á tímabilinu 12.-17. mars 2008. Áætlað er að gefa skuldabréfin út fyrir 31. mars 2008 og að því loknu verður sótt um skráningu á markað OMX Nordic Exchange á Íslandi.
Útgáfa skuldabréfanna og heimild til hækkunar hlutafjár er háð samþykki hluthafafundar. Hluthafafundur verður haldinn miðvikudaginn 19. mars 2008 kl. 9:00 í höfuðstöðvum Glitnis banka hf.
“Breytanleg skuldabréf eru góður kostur fyrir fjárfesta um þessar mundir. Bréfin í útgáfu Glitnis eru höfuðstólstryggð, gefa fasta verðtryggða vexti í fimm ár og breytast í hlutabréf í bankanum að fimm árum liðnum. Fjárfestar njóta þar með góðs af jákvæðri verðþróun á tímabilinu. Útgáfan styrkir eiginfjárhlutfall Glitnis verulega og er ein af fjölmörgum fjármögnunarleiðum bankans.” segir Alexander K. Guðmundsson, framkvæmdastjóri áhættu og fjárstýringar Glitnis.
Nánari upplýsingar gefa:
Már Másson, forstöðumaður kynningarmála, sími 844-4990, netfang: mar.masson@glitnir.is
Alexander K. Gudmundsson, framkvæmdastjóri áhættu og fjárstýringar.
S: 440 4500, netfang: alexander.gudmundsson@glitnir.is